Úrslit í teiknimyndasamkeppni 2009
Níundi Alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn
Úrslit í teiknisamkeppni barna í 4. bekk grunnskólanna
Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tilkynnti fyrir skömmu úrslit í teiknisamkeppni Alþjóðalega skólamjólkurdagsins, sem haldinn er hátíðlegur síðasta miðvikudag í september ár hvert. Eins og undanfarin ár barst mikill fjöldi teikninga í samkeppnina, sem Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins stendur að hér á landi. Að sögn Guðnýjar Steinsdóttur, markaðsstjóra MS, bárust tæplega 900 teikningar frá 54 skólum alls staðar að af landinu. Tíu nemendum eru veittar viðurkenningar fyrir teikningar sínar að loknu vali á úrtaki mynda sem lagt er fyrir menntamálaráðherra, sem jafnframt er formaður dómnefndar.
Markmið keppninnar er að vekja athygli á mikilvægu hlutverki mjólkur í daglegu mataræði barna. Neysla mjólkur hefur aukist í grunnskólum á undanförnum árum, sem m.a. má rekja til mjólkurkælivéla sem víða hafa verið settar upp í skólunum. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra tilkynnti í menntamálaráðuneytinu þriðjudaginn 7. apríl hvaða tíu teiknarar hlytu verðlaun í samkeppninni að þessu sinni.
Alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn er haldinn að undirlagi Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO. Að því tilefni, sem fyrr segir, fer árlega fram hér á landi teiknisamkeppni meðal nemanda í fjórða bekk í grunnskólum landsins. Eru verðlaunateikningarnar notaðar á veggspjöld og annað kynningarefni vegna Skólamjólkurdagsins sem fram fer næst í september.
Vinningshafarnir 2009
Harpa Mjöll Þórsdóttir í Húsaskóla, Ingibjörg Elísa Jónatansdóttir í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði, Lára Sif Davíðsdóttir í Sjálandsskóla Hafnarfirði, Embla Líf Trepte Elsudóttir í Grunnskóla Bláskógabyggðar í Reykholti, Elmar Blær Arnarson í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, Kristín María Vilhjálmsdóttir í Fellaskóla í Reykjavík, Þórhallur Tryggvason í Ísaksskóla í Reykjavík, Sveinbjörg D. Steinþórsdóttir í Fellaskóla í Reykjavík, Hafþór Ingólfsson í Nesskóla á Neskaupstað, og Valgerður Pétursdóttir í Síðuskóla á Akureyri.
Hver verðlaunahafanna fær 25 þúsund krónur, sem renna óskiptar í bekkjarsjóð viðkomandi. Vinningsteikningarnar verða senn aðgengilegar á vefslóðinni www.ms.is.

Dómnefndin að störfum:
F.v. Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, Björn S. Gunnarsson frá Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra íhugul við myndavalið.
Athugið að tímabundið er vöruafgreiðsla MS lokuð alla virka daga milli kl. 12 og 13.