MS fyrsti viðskiptavinur Tetra Pak í heiminum með allar mjólkurfernur í nýjar og umhverfisvænni umbúðir
„Neytendur þurfa að vera meðvitaðir um að tómar umbúðir eru ekki rusl heldur efniviður til að framleiða nýjar umbúðir,” sagði Erik Lindroth, umhverfisstjóri Tetra Pak í Norður-Evrópu í fyrirlestri sínum á fundi Festu og Reykjavíkurborgar um umbúðir og endurvinnslu í morgun.
Fjallað var um á fundinum hvernig umbúðir og pakkningar séu hluti af virðiskeðju í matvæla- og vöruframleiðslu og hvernig framleiðendur, smásalar og neytendur geti lágmarkað umhverfissporin sín.
Erik sagði að með því að skila fernum til endurvinnslu verði til efniviður til að búa til pitsu-, morgunverðar- og kexkassa auk fleiri ytri umbúða. Samkvæmt rannsóknum Tetra Pak er hægt að skipta neytendum í sex hópa eftir því hversu umhverfisvænir þeir eru. Árið 2011 voru um 45% neytenda á Norðurlöndunum meðvitaðir um umhverfismál en fjórum árum síðar var hlutfallið komið í 67%. Neytendur eru því sífellt að verða meira meðvitaðir um þessi mál.
Þá ræddi Erik um að það skipti máli hvaða efniviður væri notaður í umbúðir, hvernig þær eru fluttar á milli staða og hvað verður um umbúðirnar eftir notkun. Nýjar fernur Tetra Pak, sem MS hefur nú tekið í notkun fyrir sínar vörur, hafa minni áhrif á umhverfið en áður. Framleiðslan á nýju fernunum með endurnýjanlegu plasti í innra byrði og í tappa, sem er unnið úr plöntum en ekki olíu, losar minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en framleiðslan á hefðbundum fernum. MS er fyrsti viðskiptavinur Tetra Pak í heiminum sem færir allar sínar mjólkurfernur í nýjar og umhverfisvænni umbúðir.
Meðal framsögumanna voru, auk Erik Lindroth, Snjólaug Ólafsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá Andrými og Oddný Anna Björnsdóttir, verkefnastjóri í umhverfis-, samfélags- og lýðheilsumála hjá Krónunni. Fundarstjóri var Ketill Berg Magnússon, framkvæmdarstjóri Festu.
450-1111.
mán-fim 8-16 og fös 8-15.
sala@ms.is
Athugið að vöruafgreiðsla MS er lokuð alla virka daga milli kl. 12 og 13.