Heilsuskilaboð Lýðheilsustöðvar á mjólkurfernum

09.09.2010

Lýðheilsustöð og Mjólkursamsalan hafa tekið höndum saman um að koma á framfæri ábendingum um heilsuna. Þetta er gert með því að birta heilsuskilaboð frá Lýðheilsustöð á mjólkurfernum og daglega munu því skilaboð Lýðheilsustöðvar rata inn á nánast hvert heimili landsins.


Á næstu tveimur árum mun þetta samstarf Mjólkursamsölunnar og Lýðheilsustöðvar leiða til þess að jákvæð skilaboð um heilsu munu birtast á um 65 milljónum mjólkurferna. Skilaboðin snerta hreyfingu, hollt mataræði og geðheilsu. Mjólkurfernur eru góður miðill til að koma skilaboðum sem þessum á framfæri því allir kannast við að hafa lesið það skemmtilega efni sem birst hefur á mjólkurfernum á undanförnum árum. Þegar svo horft er til þess að dreift er yfir 30 milljónum mjólkurferna á ári má vænta þess að ábendingarnar skili sér til margra og vonandi tileinka sem flestir sér það sem þar segir.


Frétt tekin af vef Lýðheilsustöðvar

Fleiri fréttir