Fjölbreytt úrval jólauppskrifta

12.12.2014

Á uppskriftavef MS, gottimatinn.is er að finna fjölmargar uppskriftir fyrir flest tilefni og nú þegar jólin nálgast hefur fjöldinn allur af hátíðaruppskriftum bæst við; bæði fyrir jól og áramót. MS hefur einnig fengið til liðs við sig matarbloggara sem setja sinn svip á síðuna með skemmtilegum bloggum um mat og matargerð.

Uppskriftirnar á vefnum eru margvíslegar og þar má meðal annars finna uppskriftir að hamborgarhrygg, jólakalkúni, waldorf-salati, sörum og grunnuppskrift að vanilluís sem eru afar vinsælar fyrir jólin á flestum heimilum. Á síðunni er fjölbreytileikinn í fyrirrúmi og úrval uppskrifta mikið. Hvort sem þig langar í nýstárlegan forrétt, klassískan aðalrétt, ljúffengan eftirrétt eða gómsætar smákökur, er næsta víst að þú finnur eitthvað við þitt hæfi á síðunni.

Matarbloggarar síðunnar eru níu talsins og eru eins ólíkir og þeir eru margir. Í hverjum mánuði bætast við ný blogg frá þeim og nokkur skemmtileg jólablogg hafa verið sett inn nú þegar. Jafnframt er hægt að velja sinn uppáhaldsbloggara með því að smella á hnapp á síðu viðkomandi bloggara og fá þannig tilkynningu þegar nýtt efni frá honum kemur á vefinn.

Fyrir matgæðinga og annað áhugafólk um matargerð er líka tilvalið að skrá sig í uppskriftarklúbb MS á gottimatinn.is, en klúbburinn sendir reglulega út fréttabréf með nýjum og spennandi uppskriftum sem vert er að prófa.

Njótið aðventunnar með góðu fólki ... og góðum mat.

Fleiri fréttir