Einföldun á vöruframboði
Framleiðslu á léttmjólk í 1 lítra umbúðum án D-vítamíns hefur nú verið hætt. Er ástæðan einföldun vöruframboðs en eftir þetta verða engu að síður 18 vörunúmer í pakkaðri mjólk. Sala á léttmjólk án D-vítamíns hefur dregist saman svo tekin var ákvörðun um að framleiða aðeins léttmjólk sem væri D-vítamínbætt og laktósafría léttmjólk með D-vítamíni.
Árið 2012 hófst sala á D-vítamín bættri mjólk á Íslandi sem var gert samkvæmt ráðleggingum og hvatningu embættis landlæknis og rannsóknarstofu í næringarfræðum við HÍ og Landsspítala. D-vítamínneysla landsmanna er talsvert undir ráðleggingum og er D-vítamínneysla ungmenna sérstaklega lág.
A og D vítamín fylgja mjólkurfitunni og því er minna af vítamínum í léttmjólk á móti því sem finnst í nýmjólk. Af þeim orsökum er oft bætt við vítamíni í léttmjólk erlendis.
Léttmjólk kom á markað árið 1981 eftir umræðu í nokkur ár um þörf á fituminni mjólk fyrir neytendur sem væri með færri hitaeiningar en innihéldi jafnframt sem mest af næringarefnum. Sala á undanrennu hafði þá aukist mikið árin á undan.
Mun Mjólkursamsalan bjóða uppá eftirfarandi ferska hvíta mjólk eftir þetta:
- Nýmjólk
- Nýmjólk D-vítamínbætt
- Léttmjók D-vítamínbætt
- Léttmjólk, laktósafrí með D-vítamíni
- Fjörmjólk með A og D-vítamínbætt
- Undanrennu
- Stoðmjólk, sérhönnuð fyrir ungabörn
Athugið að vöruafgreiðsla MS er lokuð alla virka daga milli kl. 12 og 13.