Dagur íslenskrar tungu 16.nóvember

15.12.2008

 

Íslenska til alls á degi íslenskrar tungu 2008

Dagur íslenskrar tungu 16. Nóvember 2008

Málræktarþing Íslenskrar málnefndar og Mjólkursamsölunnar var haldið á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember s.l. og voru fréttir af viðburðinum talsvert áberandi. Þar kynnti málnefndin tillögur að íslenskri málstefnu og afhenti mennta­málaráðherra tillögurnar en handritið ber heitið ,,íslenska til alls“. Á annað hundrað manns sóttu ráð­­stefnuna en að henni lokinni þáðu gestir veg­legar mjólkur­veitingar í boði MS. Var þar ýmsu til tjaldað; veislu­ostum, osta­kökum, skyrdrykkjum og ískaldri mjólk.

  
Guðrún Kvaran, prófessor og formaður íslenskrar málnefndar, fór yfir störf nefndarinnar, en megin­hlutverk hennar er að veita stjórn­völdum ráð­gjöf um mál­efni íslenskrar tungu og gera tillögur til mennta­málaráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Guðrún sagði að nefndin hefði kynnt sér mál­stefnutillögur nágranna þjóðanna og séð fram á að velja þyrfti verkefnin gaumgæfilega.
Hún sagði undirbúning málstefnu tillaganna hafa falist í að velja þau svið þjóðlífsins sem mest ástæða væri til að kanna og ákveðið hefði verið að stjórn málnefndarinnar skipti sviðunum á milli sín. Að því loknu hefðu verið settir á laggirnar vinnu­hópar sem hófu störf síðsumars 2007. Þeir kynntu stöðu verk­efnisins á málræktarþinginu í fyrra en þá höfðu vinnuhóparnir þegar efnt til þings með almennum borgurum til kynningar á framvindunni. Í framhaldi af þessu var efnt til málþingaraðar þar sem hvert svið fékk verðuga um­fjöllun. Í því skyni var leitað til sam­starfs­aðila eins og móður­máls­­kennara,Vísinda­­félags Ís­lendinga,Tungu­tækni­seturs,Rit­höfunda­sambands Íslands, Alþjóðahússins, Blaðamannafélags Íslands,Viðskiptaráðs Íslands o.fl. Aðal­markmið tillagna ís­lenskrar mál­nefndar um íslenska málstefnu er að tryggja að íslenska verði nothæf á öllum sviðum íslensks samfélags og að tryggð verði lagaleg staða íslenskrar tungu sem þjóðtungu Íslendinga. Mjólkursamsalan fékk Skóla­kór Kársnes­­skóla undir stjórn Þórunnar Björns­dóttur kór­stjóra til að skemmta samkomugestum með hjart­næmum söng sínum.

Fleiri fréttir