Dagur íslenskrar tungu - 16. nóvember

15.11.2011Íslenska er okkar mál
Frá árinu 1995 hefur Mjólkursamsalan unnið markvisst að verndun íslenskrar tungu með beinum stuðningi við málræktarstarf og vekur athygli á fjölbreytileika tungumálsins.

Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Menntamálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur síðan verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.

Mjólkursamsalan styður íslenskt mál einkum með þrennum hætti:
- Með íslenskuábendingum á mjólkurumbúðum.
- Með því að leggja málvernd lið með beinum fjárframlögum, gjöfum og styrkjum

- Með sérstökum verkefnum á borð við ljóðavefinn
www.jonas.ms.is sem er stærstas safn náttúruljóða á Íslandi.


Nýyrði á mjólkurfernum

Mjólkursamsalan hrinti af stað nýju íslenskuátaki á mjólkurfernum í september 2010 þar sem athygli er vakin á nýyrðum og nýyrðasmíði á gamansaman hátt. Í átakinu er áhersla lögð á nýyrði og nýyrðasmíðar auk þess sem fjallað er um nýyrði sem náð hafa fótfestu í málinu. Með þessu vill MS hvetja landsmenn til að nota íslensk orð í stað erlendra og vekja jafnframt áhuga á nýyrðasmíðum, á heimasíðunni er að finna fjöldann allan af nýyrðum og geta notendur kosið uppáhaldsnýyrðin og komið með ábendingar um önnur nýyrði.

Horfa á auglýsingunaTil hamingju með dag íslenskrar tungu
 
 

Fleiri fréttir