Dagur íslenskrar tungu
Í tilefni af degi íslenskrar tungu gengust Íslensk málnefnd og Mjólkursamsalan fyrir málræktarþingi með nemendum í 10. bekk í Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Réttarholtsskóla í dag föstudaginn 16. nóvember. Málræktarþingið fór fram í Laugardalshöll en þar voru samankomin um þrjúhundruð ungmenni. Undanfarnar vikur hafa nemendurnir rætt saman um gildi íslenskrar tungu frá ýmsum hliðum og á málræktarþinginu báru þeir saman bækur sínar. Rætt var um íslenskukennslu, stafsetningu, lestur fornsagna, mannanafnanefnd, íslenska talsetningu sjónvarpsefnis og fjölmargt fleira og flutt tónlist. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði samkomuna. Páll Óskar Hjálmtýsson flutti tónlist og talaði um mikilvægi þess að eiga dægurtónlist á íslensku. Ari Eldjárn kynnti og fór með gamanmál -- á íslensku og um íslensku (og önnur mál). Tónlistina fluttu, Guðrún Ólafsdóttir (Réttarholtsskóla), Arnaldur Ingi Jónsson (Langholtsskóla) og Saga Ólafsdóttir (Laugalækjarskóla).
Athugið að vöruafgreiðsla MS er lokuð alla virka daga milli kl. 12 og 13.