Bjartsýni.is

15.12.2008

 

Í þeim efnahagslega óstöðugleika sem nú ríkir er mikilvægt að gleyma ekki því sem gengur vel,
enda getur góður árangur orðið öðrum hvatning eða fyrirmynd. 

Þann 12.des síðastliðin opnaði forseti Íslands vefinn www.bjartsyni.is í húsnæði Gogogic að Brautarholti 26.
Vinnuhópur með einstaklingum frá öllum þeim fyrirtækjum sem standa að þessum nýja vef voru viðstaddir opnunina ásamt öðrum fulltrúum frá fyrirtækjunum sem standa að verkefninu.
Markmiðið með þessum vef er að koma á framfæri jákvæðum sögum, hugmyndum og
ábendingum úr íslensku atvinnulífi. Á vefnum eru eingöngu góðar og uppbyggjandi sögur og
fréttir.
Tildrög þessa verkefnis eru þau að forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson kom í Marel í einni af
fyrirtækjaheimsóknum sínum fyrr í haust. Einn starfsmanna þar, Hrannar Baldursson, stakk þá
upp á að stofnaður yrði vefur þar sem fólk gæti leitað sér upplýsinga, lært af öðrum og deilt
reynslu sinni á jákvæðum nótum og reynt að smita aðra með bjartsýni. Í kjölfarið var settur
saman hópur af einstaklinga frá nokkrum fyrirtækjum og samtökum, ásamt sjálfboðaliðum sem
tóku að sér hönnun vefsíðunnar.
Nokkrar sögur hafa þegar verið settar á vefinn, og er þetta ein þeirra:
Frá Jóhanni Jónassyni, 3X Technology.
,,Árið er 1988 og staðurinn er Ísafjörður, að öðrum ólöstuðum talinn vera einn fallegasti bærinn á landinu.
Vinnustaðurinn er Pólstækni, vélaframleiðandi fyrir sjávarútveg, mikil nýsköpun og vöruþróun og góð
gróska. Félagið fór í gjaldþrot og störfuðu þar á þriðja tug manna og kvenna bæði á ísafirði og á
söluskrifstofu í Rvk. Yfir tuttugu manns misstu vinnuna og var lítið um sambærileg tækifæri að ræða í
svo litlum bæ eins og Ísafirði. Það voru þung skrefin hjá starfsmönnum að ganga inná bæjarskrifstofuna
og skrá sig atvinnulausa í fyrsta sinn á ævinni og ekki laust við að mönnum fyndist að þeir hefðu
persónulega brugðist eða gert eitthvað rangt sem að lokum leiddi til þess að félagið færi í þrot. Því
ákváðu ellefu starfsmenn að taka sig saman og sömdu við bústjóra um kaup á félaginu. Innan
skamms tíma var starfsemi komið á að nýju undir nafni Póls með nýjum áherslum og tókst á
undraskömmum tíma að tryggja atvinnu þessa fólks og fljótlega vatt starfsemin uppá sig á nýjan leik.
Félagið starfaði til ársins 2006 en var þá selt og fengu þáverandi eigendur sanngjarnt verð fyrir og
blómstrar afrakstur þeirrar nýsköpunarvinnu nú á nýjum vettvangi. Þessi lexía kenndi okkur m.a.
mikilvægi þess að trúa á okkur sjálf, standa saman í lífsbaráttunni, þora að stíga fram og reyna að takast
á við breytta tíma. Í þessu tilfelli gekk það, því margt gengur vel…”

Eftirtaldir aðilar standa að verkefninu:
3X Technology, Almannaheill, CCP, DataMarket, Gogogic, Háskólinn í Reykjavík, Hönnunarmiðstöð
Íslands, Marel Food Systems, Mjólkursamsalan, Skrifstofa forseta Íslands og Össur, auk Andrew
Burgess, Harðar Lárussonar og Ragnars Freys Pálssonar vefhönnuða.
 

Fleiri fréttir