Fernufjaðrir

 

Fernuflugi  var fyrst hleypt af stokkunum árið 2001 og síðan hafa grunnskólanemendur ýmist verið texta- eða myndasmiðir og eftir þá hefur birst skemmtilegt efni á mjólkurumbúðum. 

 

FernufjaðrirÁ hverju ári berast til Mjólkursamsölunnar nokkrar tugir fyrirspurna frá ungum skáldum sem langar til að koma ljóðum sínum og örsögum á framfæri. Það er hins vegar margra mánaðar ferli að koma efni á mjólkurfernurnar og því þarf góðan undirbúning til að ákveða hvaða efni skal birtast.
Það er miður að geta ekki orðið við ósk þessara efnilegu höfunda sem hafa fyrir því að senda inn efni og því höfum við brugðið á það ráð að hefja birtingu á þessu efni á vefnum okkar undir heitinu Fernufjaðrir


Nú er hægt að senda örsögur og ljóð til vefstjóra MS  Ernu Erlendsdóttur ernae@ms.is, Guðnýjar Steinsdóttur gudnys@ms.is og Baldurs Jónssonar baldurj@ms.is

Ritstjórn vefsins velur síðan þau ljóð og örsögur sem svo birtast á vefnum. 

 

Hér gefur að líta ljóð sem nýlega voru send til okkar.

Ung og áhugasöm stúlka, Elísabet Kristjánsdóttir, hefur sýnt ljóðunum á mjólkurfernunum sérstakan áhuga. Hún er 1. bekk í Melaskóla í Reykajvík, er orðin fluglæs og les þessi ljóð af miklum áhuga. Elísabetu er mjög umhugað um ástandið í heiminum, hún er heimsforeldri og ABC stuðningsfulltrúi.

HEIMURINN

Ég hugsa um
börnin í Afríku
og gef þeim pening

Og hjálpa þeim
sem eru í stríði

Og hjálpa
börnunum í
Heiminum

Elísabet Kristjánsdóttir 7 ára


Það var haldin vinarvika í Hofstaðaskóla á síðasta ári þar sem krakkarnir áttu að skrifa ljóð um
vináttuna. Neðangreint er eitt að þeim ljóðum sem vakti mikla athygli.


VINÁTTA
Unga stúlka, hvað myndir þú gera ef þú ættir engan vin?
Myndir þú leka niður, verða aum og lin?
Unga stúlka, hvað myndir þú gera ef það væri enginn sem þú gætir treyst?
Enginn sem stendur með þér, og saman vandamálin ykkar þið gætuð leyst?
Unga stúlka, manstu eftir vininum sem þú hafðir næstum svikið?
Ef þú hefðir gert það, heldur þú í alvöru að þú mundir fá eitthvað fyrir
vikið?
Vissir þú að fyrir þig er þetta lítið, en fyrir þann sem þú svíkur, þá gæti
þetta verið mikið?

Myndir þú klifra yfir hátt fjall- fyrir vin þinn?
Myndir þú synda yfir Svartahafið ef þú heyrðir kall- frá vini þínum?
Myndir þú hlaupa yfir heiminn-
Svífa í gegnum geiminn-
Fyrir vin þinn?

Ekki vanmeta þennan kraft-
Hugsaðu um allar góðu stundirnar sem þið gætuð haft-
Ekki svíkja vin þinn fyrir pening eða dót-
Því vináttan stingur niður einni, stórri, rót.
Ef þú missir góðan vin, þá er peningur engin bót.

Hvernig heldur þú að fugli líði þegar hann flýgur fyrst?
Hvernig heldur þú að feitum krakka líði þegar hann fær aftur sína matarlyst?
Þannig lætur góður vinur manni líða.

Sigurjón Guðjónsson, 7. AR, Hofsstaðaskóli

 

Þegar sumarið er komið, þá kveður vorið.
Fuglarnir syngja og geitungarnir stinga.
Grasið grænkar og sólin hækkar.
En svo kemur haustið og sumarið kveður.

Höfundar: Hrefna Mjöll (11 ára), Sandra Kristín (11 ára) og Sara Ósk (11 ára).

 

Nýlega barst okkur ljóð frá Skúla Jónssyni, 5. B. í Melaskóla.

Ég?
Ég er blóm á hafi sem berst
með bárum
. . .
Ég er bara ég
en samt einstakur
. . .
Ég er og þessvegna var ég
Ég verð óskrifað blað í bunka
óendanleikans
. . .
Ég er sonur föður míns
og bróðir bróður míns
. . .
Ég er kærasti fuglanna
sem svífa um himininn mjúklega
líkt og fiskarnir synda um sjóinn fimlega
. . .
Eða er ég nokkuð?


 

 

 

Ljóð frá Sóldísi Birtu í Kársnesskóla.

Það angar að fiski og slor,
og fuglarnir komnir nú komið er vor.
Dagarnir heitari,
kindurnar feitari
og ég ekki lengur með hor.

Nú fer að styttast í sól,
og dálítið langt er í jól.
gott er í sumar
að grilla sér humar
á stuttu pilsi eða kjól.